sunnudagur, september 11, 2011

Húnbogafréttir

Húnbogi er mjög klár strákur þótt ég segi sjálf frá.
Fyrir viku síðan kláraði hann að læra síðustu stafina í íslenska stafrófinu. M, D og T. Hann lærði þá í mjög handahófskenndri röð, t.d voru O, U og S þeir fyrstu sem hann lærði. Nú get ég bent á hvaða staf sem er, verður þó að vera hástafur, og hann þekkir hann. Leikur sér enn mjööög mikið með stafina í skólahúsinu og stafakarlarnir eru mjög vinsælir hjá honum.
Telur upp í 20 og er rétt að byrja að læra á klukku. Kann þó ekki tölustafina enn, enda ekki mikið spáð í þeim en hann er byrjaður að spurja um þá núna.

Er orðin voðalega mikill gaur stundum, á það til að dangla í mann, snúa út úr og gegnir ekki..... En það er nú ekki oft. Oftast er hann voðalega indæll og leikur sér vel. Hann er líka mjög hjálpsamur og vill ólmur hjálpa til þó það reynist honum oft um megn.

Hann er farinn að vilja stjórna hverju hann klæðist en það á eingöngu við um útifötinn. Ekkert eitt sem er í uppáhaldi, virðist vera algjörlega handahófskennt hvaða húfu eða hatt hann vill nota hverju sinni. Fórum og keyptum nýja kuldaskó um daginn og það var mikið þrætt fram og til baka hvaða skó ætti að kaupa. Ég vildi kaupa eina og hann aðra. Á endanum fékk hann að ráða, rauðir með Leiftri McQueen úr Cars á hliðunum. Reyndar voru það ódýrustu skórnir svo það var ekki vandamálið, finnst þeir bara soldið lausir um kálfan. Þeir sem ég vildi voru þéttari um fótinn, með frönskum rennilásum og virtu vandaðri. En jæja...þetta verður bara notað næstu 2 árin.

Hann er byrjaður að fá margar flugur í hausinn, bítur hluti í sig sem ég bara hef ekki hugmynd um hvaðan koma. í dag fórum við t.d í afmæli og gáfum afmælisbarninu örvar. Húnbogi hélt því allan tíman fram að í pakkanum væri lítill kastali.
Hann er með ákveðnar hugmyndir um marga hluti en á oft í stökustu vandræðum með að útskýra fyrir mér hvað hann vill og hvernig.
T.d eitt kvöldið fyrir svefn vildi hann að ég myndi gefa honum tölvu. Þegar þú verður eldri segi ég,..... Nei, nei nei...ég verð að fá svona tölvu með tökkum og honum er mikið um. Ég segi þá við hann að hann megi eiga mína tölvu með mér. Nei, nei nei...það verður að vera svona tölva með tökkum til að ýta á. Já segi ég...við eigum mína bara saman. Hann verður æstari með hverri sekúndu. NEI, NEI... ég verð að fá svona tölvu, sem ég ýti á takkana...og svo gefur þú mér péning. Gef ég þér péning segi ég, nei nei..þú færð bara tölvu þegar þú ert orðin eldir. NEI, NEEEII! Þú gefur mér svona 2 péninga (leikur það hvernig hann tekur péninginn úr lófanum á mér) svo ýti ég á takkana á tölvunni og þú færð mat. Jááá...segi ég, loksins farinn að kveikja á perunni, viltu fá svona tölvu eins og er í búðinni minni (Fjarðarkaup). JÁ, ég vil fá svona tölvu. Drengurinn loksins sáttur og getur farið að sofa.
Þetta var samt stytt útgáfa af þessu samtali en svona var þetta í grófum dráttum.
Hann hefur nefnilega oft staldrað við rekkann í leikfangabúðum sem er undir búðardót. Og þá er búðarkassinn mest spennandi.

Í morgunn byrjaði hann í fimleikum hjá Fimleikafélaginu Björk hér í Hafnarfirði. Skemmti sér mjög vel og hlakkar mikið til næsta tíma. Tek myndavélina með næst og smelli nokkrum myndum hingað inn.

Eins og þú sérð lesandi góður, þá er Húnbogi hið besta skinn og afburðar klár strákur (það eru mín gen).

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Írena kann ekki að segja hvað stafirnir heita, en hún kann 3 tungumál ;)

Nafnlaus sagði...

Já og hún telur betur á frönsku og dönsku en íslensku...